Forðagæslan

Hríðarsmal
Smalað inn fyrir hríð

Núna er allt okkar fé komið á  hús, enda er búið að viðra frekar illa alla vikuna og þá er nú betra að vita af fénu inni. Það er semsagt kominn hörkuvetur og heilmikið af snjó, og þá er gott að huga að inniverkum ýmiskonar.

Það er ýmiskonar bókhald sem bændur þurfa að færa yfir árið, utan hins venjulega bókhalds sem almennt fylgir fyrirtækjarekstri.

Þar ber fyrst að nefna Fjárvís, sem hefur verið fjallað um hér áður. Það þarf að auki að skrá uppskeru sumarsins í forrit sem heitir jörð.is og heldur utan um tún, áburð og uppskeru bóndans, og síðast en ekki síst þarf að skila forðagæsluskýrslu til Matvælastofnunar.

Það er þannig á Íslandi að hér er viðhaft eftirlit með öllum sem halda búfé, eðlilega, enda eru bændur að hugsa um lifandi dýr og alveg sjálfsagt að það sé vinnustaðaeftirlit hjá þeim eins og öðrum atvinnurekendum. Matvælastofnun sér um þetta eftirlit þegar kemur að bændastéttinni og til að auðveldara sé að fylgjast með því hversu mikið af búfé er til á landinu er skilað svokölluðum forðagæsluskýrslum. Skýrslur þessar eru skráðar í netforrit sem heitir bústofn.is og þar eiga allir sem eiga búfé, hvort sem það eru kindur, geitur, kýr, hestar, svín eða loðdýr, að skila inn annars vegar hversu mörg dýr þeir eiga og hins vegar hversu mikið fóður þeir eiga. Skiladagur á þessum skýrslum er 20. nóvember ár hvert.

Í skýrslunni þarf að koma fram hversu mörg dýr eru til af hvaða tegund, og sömuleiðis þarf að skipta þeim niður í aldursflokka og eftir kyni, en það kemur til af því að fóðurþarfir eru misjafnlega miklar eftir því hvort um er að ræða karlkyn eða kvenkyn, ásamt því að dýr þurfa misjafnlega mikið að éta eftir aldri. Forritið reiknar svo heildarfóðurþörf út frá ákveðnum fóðurviðmiðum á einstakling, sem fundin eru út frá rannsóknum sem gerðar hafa verið á því hvað hvert dýr þarf.

Búfé

Að auki þarf að koma fram í skýrslunni hversu mikið hey er til á hverjum bæ. Heyinu er síðan skipt upp í gæðaflokka, t.d. eftir sláttutíma, en það fóður sem slegið er fyrr er almennt orkuríkara en það sem slegið er síðsumars. Jafnframt eru skráðar inn fyrningar, en það er hey sem er til frá árinu áður, var semsagt ekki nýtt síðasta vetur.

Fóður

Forritið reiknar síðan út heildarfóðurþörf og heildarfóður, og þegar það er búið er hægt að sjá hvort nægt fóður sé til fyrir veturinn. Allt þetta er síðan reiknað út frá mjólkurfóðureiningu (FEm) en það er mælieining sem er nýtt til að meta orku í fóðri og gegnir þannig sama hlutverki og hitaeiningar í okkar fóðri.

Heildarfóður

Þegar búið er að skila þessum forðagæsluskýrslum fara búfjáreftirlitsmenn Matvælastofnunar (MAST) síðan yfir skýrslunar og gá hvort það sé ekki örugglega til nægur heyforði á hverjum bæ. Þessir búfjáreftirlitsmenn eru nokkrir yfir landið, einn í hverjum landshluta, og hafa það hlutverk að fylgjast með því hvort ekki sé hugsað vel um öll dýr í þeirra umdæmi.

Með þessu móti á það að vera nokkuð tryggt að eftirlit sé haft með öllum sem eiga búfé, og að vel sé hugsað um það, en það er ákaflega mikilvægt að vel sé fylgst með því enda vilja bændur Íslands að dýravelferð sé í hávegum höfð 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s